Hlaðvarpinn - miðstöð kvenna í Reykjavík

Það var mikill hugur í kvennahreyfingunni á árunum eftir 1980. Búið var að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur fyrsta kvenna í heiminum sem forseta landsins. Boðinn var fram kvennalisti til bæjarstjórna í Reykjavík og á Akureyri vorið 1982 með glæsilegum árangri og undir lok ársins var stofnað kvennaathvarf í Reykjavík. Næsta ár var svo boðið fram til alþingis í þremur kjördæmum. Árið 1985 var svo haldið upp á lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna með fundum og Listahátíð kvenna í október það ár þar sem á þriðja hundrað listakonur úr öllum listgreinum tóku þátt. Það voru mörg mál á dagskrá kvennabaráttunnar á þessum árum. Konur til valda, ofbeldi gegn konum og allt það sem heyrði undir sveitastjórnir landsins, svo sem dagvistun barna og skipulag bæja og borga.

Kvennaframboðið í Reykjavík og fleiri kvennasamtök voru til húsa í Hótel Vík við Ingólfstorg. Fram kom hugmynd hjá Kvennaframboðskonunum að nú væri tími til að opna Kvennahús eins og þekktust í nokkrum nágrannalanda okkar. Draumar flugu um loftið. Konur sáu fyrir sér vinnustofur, gallerí, leikhús, verkstæði, fræðasetur, kaffihús og bara nefnið það. Nokkrar úrtöluraddir heyrðust sem bentu á að á sínum tíma hefðu Hallveigastaðir átt að gegna líku hlutverki, en bág fjárhagsatað kvennahreyfinganna hér á landi komið í veg fyrir að það yrði að veruleika. Ekki létu þær sem töldu hugmyndina góða slík rök aftra sér í að leita að húsnæði. Við Þingholtsstræti var til sölu hús sem var talið hentaði en fallið var frá að kaupa það þegar húsin að Vesturgötu 3 voru auglýst til sölu. Vesturgötuhúsin voru í eigu eldri systra sem höfðu erft þau. Byggingaverktaki syndi húsunum áhuga en hann hugðist rífa þau og byggja hótel í staðin. Systurnar kváðu úr um að þær vildu selja konum húsin. Kvennaframboðskonur gerðu sér grein fyrir að aðeins yrði þessi draumur að veruleika að konur úr öllum flokkum slægju saman í púkk. Til þess þurfti að stofna hlutafélag og fá konur til að kaupa hlutabréf í húsunum. Boðað var til fundar og kunningjakonur, vinkonur, samstarfskonur, frænkur og systur boðaðar. Hugmyndin var kynnt og stjórn skipuð. Fyrsta verk hennar var að samþykkja að fá nokkrar myndlistarkonur til að hanna hlutabréfin.

Hafist handa við að hreinsa, mála og gera við en fljótt kom í ljós að húsin þurftu meiri háttar viðgerð til að verða nothæf, t.d þurfti að endurnýja allt rafmagn, pípulagnir, glugga, járn á húsunum og fleira og fleira. Það var mikil og dýr barátta að koma húsunum í horf en það tókst um síðir.

Hlaðvarpahúsin voru tekin í notkun eitt af öðru og þar rættust margir draumar. Fræðikonur fengu herbergi. Fyrsta listastarfsemi húsanna var frábær uppsetningu Helgu Bachmann leikkonu á nokkrum sögum eftir skáldkonuna Ástu Sigurðardóttur. Það var á Listahátíð kvenna en einnig var til sýnis í húsunum hugmyndir kvenarkitekta á því hvernig þær gætu hugsað sér að húsin litu út í framtíðinni. Síðar var svo Kaffileikhúsið stofnað sem rekið var í nokkur ár og setti upp nokkrar frábærar sýningar. Margvísleg önnur listastarfsemi var í húsunum í lengri og skemmri tíma svo sem gallerí með verkum eftir konur og handverksmarkaður. Í húsunum áttu sér samastað Stígamót, Kvennaathvarfið og ýmis önnur starfsemi sem vann að réttindamálum kvenna.

Ævintýrið tók þó enda. Rekstur hússins og viðgerðir kostuðu mikið fé og skuldir hlóðust upp. Þar kom að ákveðið var að hætta rekstrinum og selja húsin. Þegar upp var staðið og skuldir höfðu verið greiddar reyndist dágóður sjóður eftir. Honum hefur nú verið breytt í menningarsjóð kvenna eins og kveðið er á um í lögum Hlaðvarpans. Nú munu þessir peningar sem þúsundir kvenna lögðu fram á sínum tíma til að koma á fót menningarmiðstöð kvenna nýtast til spennandi verkefna á næstu árum. Þau verkefni eiga að vera í anda Hlaðvarpans; hvetjandi, ögrandi, upplýsandi og bætandi. Þau eiga að efla konur til enn frekari sóknar í átt til jafnstöðu kynjanna.