Skipulagsskrá fyrir Hlaðvarpann, menningarsjóð kvenna á Íslandi.

1. gr.
Hlaðvarpinn, er sjóður sem stofnaður er af hluthöfum Hlaðvarpans ehf. til styrktar menningarmálum kvenna á Íslandi. Stofnfé sjóðsins eru söluandvirði fasteigna félagsins að Vesturgötu 3 í Reykjavík að frádregnum skuldum.

2. gr.
Markmið sjóðsins er að styrkja menningarstarfsemi kvenna sem beinist að því að greina, efla, varpa ljósi á og breyta stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Með menningarstarfsemi er átt við hvers kyns listir, rannsóknir og kynningu á menningu kvenna.

Listir, rannsóknir og kynning á menningu kvenna nær til skrifa, sjónlista, sýninga, tónleika, útgáfu, uppákoma, kvikmyndagerðar, þáttagerðar, námskeiða, ráðstefna og hátíða sem tengjast menningarmálum sem og annað það sem fellur að markmiðum sjóðsins. Rannsóknir geta náð til einstakra þátta í menningu kvenna, menningarviðburða, einstakra verka, félaga og einstaklinga sem lagt hafa mikilvægan skerf til menningar kvenna.

3. gr.
Markmiðum sínum hyggst sjóðurinn ná með því að styrkja konur, samtök þeirra, félög eða fyrirtæki, sem vinna að markmiðum sjóðsins, fjárhagslega, til einstakra verkefna.
Styrki má veita einstaklingum, hópum, fyrirtækjum eða félögum sem uppfylla sett skilyrði. Skilyrðin eru: að verkefni falli að markmiðum sjóðsins, sé vel skilgreint, kostnaðaráætlun og verkáætlun fylgi, svo og ferilskrá þeirra sem bera ábyrgð á verkefninu.

Styrkþegi skal skila skýrslu til sjóðsins um nýtingu styrksins að verki loknu.

Ekki skal veita styrki til rekstrar, bygginga eða til að greiða skuldir.

4. gr.
Stjórn Hlaðvarpans ehf. er jafnframt stjórn sjóðsins.

5. gr.
Tekjur sjóðsins eru arður og vaxtatekjur af stofnfé og öðru fé sem sjóðnum kann að áskotnast auk gjafa og annarra framlaga.

6. gr.
Stjórn sjóðsins skal annast fjárvörslu sjóðsins en fjármuni hans skal ávaxta með tryggum hætti. Stjórninni er heimilt að fela viðurkenndu verðbréfafyrirtæki að annast ávöxtun fjárins.

7. gr.
Árlega skal úthlutað framlögum úr sjóðnum. Skal stjórnin auglýsa í dagblöðum eftir umsóknum um styrki með hæfilegum fyrirvara.

Árlega skal úthlutað arði og vaxtatekjum síðastliðins árs, að frádregnum rekstrarkostnaði. Auk þess skal úthlutað hluta höfuðstóls þannig að sjóðurinn verði tæmdur á 10 árum.