Hlaðvarpinn er sjóður sem stofnaður er af hluthöfum Hlaðvarpans ehf. til styrktar menningarmálum kvenna á Íslandi. Stofnfé sjóðsins er söluandvirði fasteigna félagsins að Vesturgötu 3 í Reykjavík sem íslenskar konur keyptu árið 1985.
Tilkynningar

Hluthafafundur Hlaðvarpans ehf.

Hluthafafundur Hlaðvarpans ehf., menningar- og styrktasjóðs kvenna, verður haldinn á Hallveigarstöðum, Túngötu 14 (2. hæð), fimmtudaginn 26. nóvember 2015, klukkan 17.
Dagskrá:
1. Slit félagsins
2. Kosning skilanefndar skv. 2.mgr 85. gr laga nr. 138/1994
3. Önnur mál

Stjórnin


Úthlutun úr Menningarsjóði Hlaðvarpans í janúar 2015

Menningarsjóður Hlaðvarpans hefur nú úthlutað styrkjum til menningarmála kvenna í síðasta sinn. Úthlutað var 6 milljón krónum að þessu sinni. Veittir voru styrkir til fimmtán verkefna en alls bárust níutíu umsóknir. Smelltu hér til að sjá styrkþega.

Áttatíu milljónir á átta árum til menningarmála kvenna

Hlaðvarpinn, mikilvægur menningarsjóður kvenna, úthlutar nú í síðasta sinn

Menningarsjóður Hlaðvarpans úthlutar 6 milljón krónum til menningarmála kvenna að þessu sinni. Úthlutunin fer fram í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, kl. 17.00 mánudaginn 19. janúar 2015. Fyrri styrkþegar, hluthafar í Hlaðvarpanum og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta. Í þessari áttundu úthlutun úr sjóðnum, sem jafnframt er síðasta úthlutunin, verða veittir styrkir til fimmtán verkefna en alls bárust níutíu umsóknir.

Árlega hefur verið úthlutað úr sjóðnum frá árinu 2008. Alls hefur verið úthlutað um 80 milljónum króna til rúmlega 145 verkefna. Við úthlutun er haft í huga að sem flest svið menningar njóti stuðnings. Á heimasíðu Hlaðvarpans, hladvarpinn.is, eru upplýsingar um úthlutanir úr sjóðnum frá upphafi.

Árið 1985 ákvað hópur kvenna að festa kaup á húsunum við Vesturgötu 3 í Reykjavík. Þau voru þá í nokkurri niðurníðslu og hætta á að þessi glæsilegu hús yrðu rifin. Ákveðið var að stofna hlutafélag kvenna sem keypti húsin og gekk undir nafninu Hlaðvarpinn. Smátt og smátt voru húsin gerð upp og þar blómstraði ýmis konar menningarstarfsemi um árabil. Þar var rekið leikhús, bæði í kjallara og sal, haldinn fjöldi tónleika og funda. Herbergi voru leigð út til félaga og fræðikvenna og þannig mætti áfram telja. Viðgerðir og rekstur voru félaginu þung í skauti og skuldir söfnuðust upp. Þar kom að ákveðið var að hætta rekstrinum og selja húsin. Í samþykktum Hlaðvarpans var kveðið á um að yrði félagið lagt niður skyldi andvirði húsanna varið til að styrkja menningarstarfsemi kvenna.

Ákveðið var því að stofna menningarsjóð kvenna og verður nú úthlutað úr sjóðnum áttunda árið í röð. Nú er úthlutað úr sjóðnum í síðasta sinn, enda sjóðurinn tæmdur.

Stjórn menningarsjóðs Hlaðvarpans skipa Drífa Snædal, Anna Lísa Björnsdóttir, Brynhildur G. Flóvenz, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Hrefna Haraldsdóttir, Ragnhildur Richter og Úlfhildur Dagsdóttir.

Nánari upplýsingar um úthlutunina veitir Drífa Snædal, formaður stjórnar sjóðsins, í síma 6951757.